Allir þekkja múmínálfana, þessar stórskemmtilegu ævintýraverur sem hafa glatt ótal börn og fullorðna áratugum saman – í sjónvarpsþáttum, teiknimynda-sögum, bíómyndum og ekki síst bókum.
Þessi bók geymir síðustu þrjár sögurnar um múmínálfana. Sjöunda og áttunda bókin hafa verið ófáanlegar árum saman: smásagnasafnið Ósýnilega barnið, þar sem margs konar háski steðjar að söguhetjunum, og Eyjan hans múmínpabba en þar finnst múmínpabba hann ekki vera til nokkurs gagns lengur svo hann flytur með fjölskylduna á eyðieyju langt úti í hafi. Níunda bókin, Seint í nóvember, birtist nú í fyrsta skipti á íslensku en hún gerist á meðan múmínfjölskyldan er á eyjunni. Þá koma hemúll, fillífjonka, Snúður, kaskurinn Þófti og Skari gamli í múmíndal í leit að múmínfjölskyldunni en finna ýmislegt dýrmætt í hennar stað.
Rithöfundurinn, listmálarinn og teiknarinn Tove Jansson skapaði múmínálfana. Hún gerði um þá teiknimyndasögur, leikrit, myndskreyttar barnabækur og skrifaði níu sögubækur. Nú eru þær loks allar fáanlegar á íslensku, í veglegum stórbókum.
Guðrún Jarþrúður Baldvinsdóttir þýddi Ósýnilega barnið, Steinunn Briem þýddi Eyjuna hans múmínpabba og Þórdís Gísladóttir þýddi Seint í nóvember.