Bók sem umbreytir skilningi okkar á áföllum og kynnir skilvirkar leiðir að lækningu og bata.
Áföll sem fólk verður fyrir á lífsleiðinni geta haft mikil, átakanleg og varanleg áhrif á einstaklingana sjálfa, fjölskyldur þeirra og jafnvel næstu kynslóðir, ekki síst ef þolendurnir eru börn eða ungmenni. Rannsóknir sýna að áföll bitna ekki aðeins á andlegri líðan fólks, tilfinningalífi, skynjun og félagsfærni, heldur geta þau haft víðtækar heilsufarslegar afleiðingar. Um leið hafa þau því áhrif á samfélagið allt og eru oft vanmetinn og dulinn vandi.
Hér rekur einn helsti sérfræðingur heims í áfallafræðum fjölda vísindalegra staðreynda um afleiðingar áfalla og segir sláandi dæmisögur af skjólstæðingum sínum, ásamt því að kynna leiðir til bata; aðferðir sem reynst hafa skilvirkar til að lækna huga, heila og líkama.
Líkaminn geymir allt hefur setið á metsölulistum lengi enda fjallar bókin um afar áhugavert efni sem snertir marga og hefur vakið mikla umræðu um geðheilsu. Höfundurinn, dr. Bessel van der Kolk, er geðlæknir í Boston með áratuga reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á áfallameðferð. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson þýddu.