Á köldum vetrarmorgni er rannsóknarlögreglan kölluð út að Hólavallagarði. Innan um þá sem þar hafa verið lagðir til hinstu hvílu finnst lík eldri konu og fljótt er ljóst að dauðdaga hennar hefur borið að með saknæmum hætti. Hver getur hafa átt eitthvað sökótt við þessa eldri konu sem virðist hafa verið hlédræg, vanaföst og einförul?
Þegar rannsókninni miðar áfram er greinilegt að ekki var allt sem sýndist í lífi konunnar og Guðgeir Fransson og teymi hans eiga fullt í fangi með að leysa þetta dularfulla mál sem meðal annars leiðir þau á miðilsfundi og djúpt í þyrnum stráða fortíð fórnarlambsins.