Hinn 25. september 2024 varð Markús Sigurbjörnsson sjötugur. Eftir að hafa í skamman tíma verið fulltrúi, fyrst hjá bæjarfógetanum í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslumanninum í Gullbringusýslu og síðan við embætti yfirborgarfógetans í Reykjavík, var Markús skipaður borgarfógeti árið 1985. Því embætti gegndi hann til ársins 1988 þegar hann varð prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann sinnti einkum kennslu og rannsóknum í réttarfari. Hann var svo skipaður í embætti hæstaréttardómara 1. júlí 1994 og gegndi því um liðlega 25 ára skeið.
Meðfram störfum sínum við Háskóla Íslands vann hann að samningu lagafrumvarpa sem síðar urðu grundvöllur nýrrar réttarfarslöggjafar sem enn í dag er að mestu óbreytt. Markús var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við lagadeild Háskóla Íslands 6. október 2021.
Fáir lögfræðingar, ef nokkur, hafa haft viðlíka áhrif og Markús á þróun íslensks réttar á síðustu áratugum, ekki síst á sviði réttarfars. Í tilefni af þessum tímamótum hafa nokkrir vinir og samferðarmenn Markúsar ákveðið að gefa út afmælisrit honum til heiðurs.