Það er alkunn staðreynd að í nútímanum á fólk sífellt erfiðara með einbeitingu og athygli – að lesa, læra og sökkva sér ofan í flókin verkefni. En hver er ástæðan? Blaðamaðurinn Johann Hari lagði upp í ferð til að leita svara og Horfin athygli er afraksturinn; einkar læsileg og áhugaverð bók byggð á fjölda rannsókna og viðtala við sérfræðinga víða um heim sem Hari fléttar saman við eigin athuganir og reynslu.
Hér er því lýst hvernig örar breytingar í umhverfinu, ný tækni og græðgi stórfyrirtækja hafa hreinlega rænt okkur hæfileikanum til djúprar, sjálfstæðrar og frumlegrar hugsunar og þannig haft afgerandi áhrif á viðhorf okkar, þekkingu, samskipti og sjálfa samfélagsgerðina, svo mjög að lýðræðið er í hættu. Þó er ekki öll von úti, en lausnin krefst þess að við íhugum vandlega hvernig lífi við viljum lifa og hvernig samfélagi við viljum búa í, og tökum síðan meðvitaðar ákvarðanir um neyslu okkar, tækninotkun og lífsstíl í samræmi við óskir okkar og drauma um gott og innihaldsríkt líf.
Bókin hefur vakið mikla athygli, unnið til verðlauna og komið út víða um heim. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson þýddu.