Ferðalag Cilku er áhrifarík örlagasaga stúlku frá Slóvakíu sem aðeins sextán ára gömul er send í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz-Birkenau. Árið er 1942 og gyðingum ekki vært í ríki nasista. Í búðunum fær yfirmaður augastað á henni og skipar hana nauðuga í sérstakt hlutverk sem verður til þess að hún lifir af, með ærnum fórnarkostnaði.
Í stríðslok fá eftirlifandi fangar frelsi en Cilka er sökuð um samstarf við kúgarana og send í næstu fangabúðir, gúlagið í Síberíu. Þar er lífið síst mildara og daglega mega tugþúsundir fanga þola þrældóm, hungur og ofbeldi. Dauðinn er sífellt nálægur. En Cilka er sterk og þrátt fyrir allt sem hún hefur gengið í gegnum tekst henni að halda mennsku sinni og reisn, ásamt því að koma öðrum til hjálpar með skynsemi sinni og dýrkeyptri lífsreynslu.
Saga Cilku er byggð á atburðum í lífi konu sem var til í raun og veru. Höfundurinn, Heather Morris, heyrði fyrst af ótrúlegri ævi Cilku hjá Lale Sokolov, manninum sem hún skrifaði fyrstu skáldsögu sína um, metsölubókina Húðflúrarinn í Auschwitz. Ólöf Pétursdóttir þýddi.