Óskar Halldórsson varð lektor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands árið 1968 og starfaði við skólann í rösklega áratug. Þessi bók hefur að geyma safn ritgerða hans um bókmenntir, einkum um íslenskar fornsögur og ljóðagerð á 19. og 20. öld. Þar á meðal er þekktasta framlag hans til rannsókna á fornbókmenntum, Uppruni og þema Hrafnkelssögu. Í þeirri ritgerð tekst hann á við ríkjandi rannsóknarhefð og fyrri kenningar um söguna og sýnir fram á að munnleg sagnahefð muni hafa átt þátt í tilurð hennar. Fleiri ritgerðir um Íslendingasögur eru í bókinni, svo sem merkar greinar Óskars um Grettis sögu.
Óskar var mikill unnandi ljóðlistar og ljóðaupplestur hans rómaður. Í bókinni eru margar ritgerðir um ljóðagerð seinni tíma og fjallað þar um skáldin Bjarna Thorarensen, Pál Ólafsson, Stephan G. Stephansson, Jóhannes úr Kötlum, Halldór Laxness, Snorra Hjartarson, Ólaf Jóhann Sigurðsson og Hannes Pétursson. Um ljóðlist nóbelsskálsins hefur varla verið betur fjallað en í grein Óskars um Kvæðakver Halldórs Laxness og almennt má segja um ritgerðir hans um íslenska ljóðlist að þar komi „alltaf glöggt í ljós næmur skilningur hans og gagnrýnin, persónuleg túlkun“, eins og Vésteinn Ólason kemst að orði í inngangi sínum.