Alls konar íslenska – fyrir allt áhugafólk um tungumálið.
Alls konar íslenska: Hundrað þættir um íslenskt mál á 21. öld er safn fjölbreyttra þátta um íslensku eftir Eirík Rögnvaldsson. Umfjöllunarefnin eru margvísleg, allt frá eldheitum „málvillum“ yfir í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á 21. öldinni hvað varðar til dæmis viðmið í málrækt, samfélags- og tæknibreytingar og kynjamál og kynhlutleysi í máli. Meginþræðirnir í umfjöllun Eiríks eru þó gildi tungumálsins í menningu okkar, að tungumálið sé fyrir okkur öll, ekki útvalda, og nauðsyn þess að umræða um málfar fólks og tungumálið sjálft einkennist af jákvæðni og umburðarlyndi.
Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands og einn helstu forvígismanna íslenskrar máltækni. Hann hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á stöðu íslenskunnar og efla skilning á tilbrigðum og fjölbreytileika tungumálsins og mikilvægi þess í menningu okkar og samskiptum.