„Himinninn er kolsvart teppi sem er ofið með glitrandi þráðum. Það er bókstaflega eins og himinhvolfið sé að detta ofan á okkur með öllum sínum stjörnum, vetrarbrautum, stjörnuþokum og óendanleika. Engin hús eru til að skyggja á, engin ljós – aðeins við, alheimurinn og nokkrir plaststólar sem standa í þurri moldinni.“
Allt frá því Sigríður Víðis Jónsdóttir komst yfir rauðu landabréfabókina á skólabókasafninu á Akranesi hefur veröldin heillað hana. Í Vegabréf: Íslenskt ferðast hún með lesendum um heiminn, heimsækir til að mynda brunadeild á sjúkrahúsi í Afganistan, dvelur í völundarhúsi í Sýrlandi, hittir börn í gullnámu í Búrkína Fasó og kynnist flóttafólki í Suður-Súdan. Í Eþíópíu búa geimverur á Hilton hótelinu og í Mjanmar hvíslar fólk um stjórnvöld. Í gegnum frásagnir af fólki á hverjum stað miðlar Sigríður heimssögunni af einstakri næmni og virðingu og minnir okkur á að þrátt fyrir að höf og eyðimerkur skilji okkur að búum við öll undir sama himni, sömu sól.
Sigríður hefur meðal annars starfað sem blaðamaður, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi og aðstoðarmaður ráðherra. Fyrsta bók hennar, Ríkisfang: Ekkert, vakti mikla athygli og hlaut viðurkenningu Hagþenkis auk þess sem hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.