Ég bjó í fimm fermetra rými í huga mínum
með hverri hugleiðslu stækkaði rými mitt
með hverri stund í lyfjamóki
flúði ég inn í mjúkan hugann
og byggði þar hús og hallir
síðar gat ég mölvað heiminn í sundur
og endurraðað brotunum
hugur minn er ekki lengur skilgreint rými
hann er ósnortin náttúra
engi
syngjandi hrossagaukur
dramatísk fjöll
og fljót
brimandi sjór
og lygnar lindir
Til hamingju með að vera mannleg er kröftug og falleg, fyndin og átakanleg ástarjátning til lífsins eftir dansarann og danshöfundinn Sigríði Soffíu Níelsdóttur. Ljóðin skrifaði hún á meðan hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Vorið 2023 var frumsýnt dansleikverk með sama nafni á stóra sviði Þjóðleikhússins, byggt á textum hennar.