Romsur, innblástur, minningar, skoðanir, íhuganir, reglur, andagift, mas, stökur.
Rimsírams Guðmundar Andra Thorssonar er allt þetta – en líka brýningar og boðskapur, predikanir og pælingar, vangaveltur og vitleysa, skáldskapur og músík og allrahanda …rimsírams. Stílvopnið er vel yddað, beitt og mjúkt í senn, og skrifarinn segir af innlifun og hlýju frá ferðinni kringum sólina frá vetri til vetrar, hversdögum og sparidögum, morgunstundum og draumanóttum, sjónvarpskvöldum og göngutúrum, rýnir í fortíð og samtíð og framtíð og altíð – eilífðina – sjálfan sig og okkur hin, samfélagið. Bók sem býður lesendum upp í dans við orð og hugmyndir um allt sem er.
Guðmundur Andri hefur skrifað skáldsögur, ljóð, greinar, minningar og ógrynni pistla um ólík efni. Eftir nokkurt útgáfuhlé snýr hann aftur á ritvöllinn, glaðbeittur.