Getum við náð stjórn á löngunum okkar?
Er unnt að beisla áráttukennda neyslu?
Hvernig finnum við jafnvægi og vellíðan?
Dópamínríkið fjallar um unað og nautnir – en einnig um sársauka; andstæðar kenndir sem vegast sífellt á í lífi okkar en þurfa að vera í jafnvægi til að okkur líði vel. Taugaboðefnið dópamín er lykilþáttur í þeirri jöfnu en magn þess í heilanum gefur til kynna hversu líklegt er að við verðum háð tiltekinni hegðun eða neysluvöru.
Við lifum á tímum fordæmalausrar ofgnóttar, hvort sem um er að ræða vímuefni, mat, fréttir, fjárhættuspil, tölvuleiki, klám, samfélagsmiðla, símanotkun eða hvað annað sem við sækjum í. Framboðið er ótakmarkað, örvunin viðstöðulaus og við getum látið allt eftir okkur, fengið meira og meira.
Hér útskýrir geðlæknirinn Anna Lembke hvers vegna unaðsleitin – áráttukennd neysla eða hegðun – leiðir óhjákvæmilega af sér sársauka og vanlíðan, og lýsir því hvað er til ráða. Flókin taugavísindi eru sett fram með einföldum hætti og reynslusögur sýna hvernig unnt er að ná stjórn á ofneyslu, hverju nafni sem hún nefnist, og öðlast þannig jafnvægi og hugarró.
Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson þýddu.
Aanna Lembke er geðlæknir og yfirmaður fíknirannsókna og fíknilækninga við Stanford háskóla. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framúrskarandi rannsóknir á geðsjúkdómum, kennslu og nýsköpun í klínískri meðferð og hefur birt yfir hundrað ritrýndar greinar, bókakafla og umsagnir í virtum fræðiritum og tímaritum á borð við The New England Journal of Medicine og JAMA. Hún situr í stjórn nokkurra opinberra bandarískra stofnana sem fjalla um fíkn og fíkniefni, hefur borið vitni fyrir ýmsum nefndum á Bandaríkjaþingi, er ötull fyrirlesari og sinnir sjúklingum jöfnum höndum.