Bjarni Snæbjörnsson ólst upp á Vestfjörðum við algeran skort á hinsegin fyrirmyndum. Það eina sem hann heyrði um aðra homma var að þeir væru öfuguggar og kynvillingar. Til að lifa af spilaði hann eftir þeim reglum sem hann taldi gilda en í leiðinni afneitaði hann sjálfum sér með öllum tiltækum ráðum. Hér segir Bjarni, með aðstoð dagbóka sinna og bréfaskipta við fjölskyldu og vini, frá leiðinni út úr skápnum. Hann lýsir á hispurslausan hátt ævintýralegri för um heiminn, erfiðum tímum, ástum og kynlífi, litlum og stórum sigrum í lífi og leiklist – ásamt áralangri sjálfsvinnu til að ná sátt við sína margbrotnu og litríku mennsku.
Mennska er aðgengileg og hrífandi lesning sem á erindi við alla sem hafa glímt við skömm og reynt að skila henni, finnst erfitt að taka pláss í samfélaginu eða hafa fórnað hluta af sjálfum sér af ótta við viðbrögð annarra.