Miklar hamfarir eru í uppsiglingu. Himinninn yfir Íslandi leiftrar og undarlegir sviptistormar geisa. Á bak við tjöldin ríkir glundroði og líkin hrannast upp.
Brá er einstæð móðir á skilorði sem býr hjá ölkærum afa sínum. Hún hefur snúið baki við nornaskapnum og reynir að lifa „venjulegu“ lífi. Ekkert hefur spurst til móður hennar, miðilsins Bergrúnar Búadóttur, en sex ár eru liðin frá því hún steig yfir í heim vættanna. Líf beggja tekur stakkaskiptum þegar gamall andstæðingur krefur Brá um dýrmætan grip sem þó enginn nema Bergrún veit hvar er niðurkominn. Í kjölfarið hefst kynngimögnuð og spennuþrungin atburðarás sem leiðir mæðgurnar í ærna svaðilför.
Handan Hulunnar er bókaflokkur sem hófst með verðlaunabókinni Víghólum og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda sem og lesenda. Í Skuld ráðast örlög Bergrúnar og Brár.