Á fjarlægum ströndum er safn greina eftir fjórtán höfunda. Víða er komið við í samskiptasögu landanna og má finna margt forvitnilegt sem hefur tengt löndin allt fram á okkar daga. Sagt er frá ferðum um Jakobsveginn fyrr og nú, hvalveiðum Spánverja við Íslandsstrendur og Baskavígunum svonefndu, flóknum samskiptum íslenskrar stúlku og spænsks manns á 17. öld, útflutningi á saltfiski og innflutningi á Spánarvínum, íslenskum sjálfboðaliðum sem börðust í spænsku borgarastyrjöldinni og íslenskum gítarnemum á Spáni. Einnig er fjallað um sólarlandaferðir Íslendinga, upphaf spænskukennslu á Íslandi, þýðingar íslenskra bókmenntaverka á spænsku og spænskra á íslensku, orð sem hafa farið milli tungumálanna tveggja og gömul orðasöfn og handrit. Í bókarlok eru minningarbrot Spánverja sem hafa sest að á Íslandi og Íslendinga sem hafa dvalið lengri eða skemmri tíma á Spáni.
Ritstjórar: Erla Erlendsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir
Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur