Byrgið geymir úrval margbreytilegra texta sem Franz Kafka lét eftir sig óútgefna er hann lést aðeins fertugur að aldri árið 1924. Óbirtar voru þá einnig þrjár skáldsögur hans sem allar hafa þegar komið út á íslensku en þetta safn veitir innsýn í fjölhæfni höfundarins og tök hans á styttri tjáningarformum.
Kafka var meðal frumkvöðla í ritun örsagna á síðustu öld og í þeim tengir hann nútímann gjarnan við forn sögusvið. Auk örsagna og smásagna má hér finna kjarnyrði og sögubrot, sem og tvær þéttriðnar nóvellur þar sem óvenjulegar aðalpersónur reyna að finna sér stað í tilverunni.
Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson þýddu í sameiningu hluta þess efnis sem í bókinni er. Þýðingarnar birtust í blöðum og tímaritum á sínum tíma en Ástráður hefur endurskoðað þær og þýtt til viðbótar allnokkrar sögur og kjarnyrði sem koma nú í fyrsta sinn út á íslensku. Hann skrifar einnig eftirmála og gerir grein fyrir efninu og helstu einkennum á verkum Kafka.
Franz Kafka var þýskumælandi gyðingur sem fæddist í Prag og bjó þar nær alla ævi. Hann var lögfræðimenntaður en hafði ástríðu fyrir ritlist. Meirihluti skáldverka hans birtist að honum látnum, einkum fyrir tilstuðlan og í umsjón vinar hans, Max Brod. Kafka er meðal helstu og áhrifamestu rithöfunda 20. aldar.