Í upphafi níunda bekkjar er lífið nokkuð ljúft hjá Millu, Rakel og Lilju. Helstu vandamálin eru rómantískar flækjur, hvaða mynd á að sjá í bíó, hvernig á að koma feitum hundi í form og hið stöðuga vesen sem það er að eiga foreldra. En það líður ekki á löngu áður en þríeykið rambar á dularfullt leyndarmál (í stærri kantinum) og ógn hins yfirnáttúrulega grípur þær á nýjan leik. Að þessu sinni skerast háleynileg, ill samtök í leikinn svo vinkonurnar þrjár neyðast til að stóla á aðstoð seinheppins stærðfræðikennara með minnimáttarkennd ef þær eiga að geta bjargað deginum.
DREKAR, DRAMA OG MEIRA Í ÞEIM DÚR er grátbroslegt og sjálfstætt framhald bókarinnar Vampírur, vesen og annað tilfallandi sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2020 og var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og Fjöruverðlaunanna.
Rut Guðnadóttir kennir íslensku í menntaskóla, elskar chillhop, hryllingsmyndir og ketilbjöllur. Rut kann ekki að tjalda, verður reið þegar hún spilar tölvuleiki og er alltaf kalt á tánum. Rut er farið að finnast auðveldara að tala um sjálfa sig í þriðju persónu þó það sé enn örlítið undarlegt. Rut vonar sem fyrr að þú lesir bækurnar hennar.