Einstök leiðsögn um undraheim dýranna.
Dýraríkið er í senn yfirgripsmikið fræðslurit og uppflettirit um dýrafræði, uppfullt af fróðleik um dýr af öllum stærðum og gerðum, allt frá örsmáum frumdýrum til stærstu spendýra. Í tveimur bindum er fjallað í máli og myndum um lífsstörf og líkamsgerð dýra, flokkun þeirra og helstu eiginleika, og sagt frá hegðun og sérkennum fjölda einstakra tegunda. Farið er víða yfir og fléttað saman fræðilegum texta og forvitnilegum frásögnum.
Örnólfur Thorlacius, líffræðingur og kennari, kom víða við á löngum ferli við skrif og þýðingar. Eftir hann liggur fjöldi kennslubóka og rita almenns eðlis en Dýraríkið er hans metnaðarfyllsta ritverk og ber vitni ævilangri ástríðu fyrir hvers kyns fróðleik tengdum dýraríkinu. Örnólfi entist ekki aldur til að fylgja ritinu eftir til útgáfu og sáu Árni Thorlacius, lífefnafræðingur, Lárus Thorlacius, eðlisfræðingur og Magnús Thorlacius, líffræðingur, um að ljúka verkinu en allir þrír eru afkomendur Örnólfs.
Ritið er ríkulega myndskreytt og því fylgir ítarleg atriðisorðaskrá.