„Ég næ að ýta minningunum út úr efsta hluta höfuðsins niður í gagnaugað, jafnvel alveg niður að kjálka. En þar sitja þær sem fastast og ég finn brunatilfinningu í hægri vanganum. Hugsanirnar eru ekki gegnsæ ský. Þær eru logandi bál.“
Þegar fyrrverandi stjúpmóðir Eyju hefur samband bregst hún ókvæða við; af hverju vill hún að þær hittist öllum þessum árum síðar, hvað er ósagt? Hittingurinn vekur upp minningar, ekki síst um atburðinn sem gerði Eyju að þeirri manneskju sem hún er í dag. Eyja er saga um flókin fjölskyldutengsl, brengluð samskipti og sár sem ekki gróa.
Ragnhildur Þrastardóttir starfar sem blaðamaður á Heimildinni. Þetta er fyrsta bók hennar.