Íslenskar sauðkindur eru fagrar og harðgerðar. En málið er ekki alveg svo einfalt. Þær geta verið tvenns konar: forystufé og annað fé. Forystufé hefur fylgt íslensku þjóðinni allt frá landnámi og hafa bændur í gegnum aldirnar notfært sér einstaka hæfileika þess. Hér er að finna aðgengilegan fróðleik og fjölda sagna um þessar sérstöku kindur.
Það sem greinir forystufé frá öðrum kindum er að það býr yfir ólíku gáfnafari, velur bestu leiðir og sýnir mikinn dugnað og hörku. Sagt er að forystufé finni á sér þegar veðrabrigði eru yfirvofandi – og sjái jafnvel ýmislegt sem öðrum er hulið. Forystufé er einnig háfættara og töluvert léttara en aðrar kindur.
Guðjón Ragnar Jónasson og Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé, hafa hér safnað saman sögunum um forystuféð og fundið til ýmsan fróðleik um þessar kindur sem hætta aldrei að koma á óvart með atferli sínu og gáfnafari – kindum sem ætíð hefur hvílt ákveðin dulúð yfir.