Allir hafa gagn af tímabundinni hvíld frá erilsömu borgarlífinu og að ferðast um framandi landslag. Það á ekki síst við um unglinga í sál-félagslegum vanda.
Á tveggja vikna bakpokaferðalagi um Strandir geta unglingarnir leyft ferskum vindum að blása um hugann, þeir geta endurraðað farangrinum í bakpoka reynslunnar og fundið nýjar leiðir og annan takt í lífinu.
Hálendishópurinn var einstakur fyrir þrennt:
Á Íslandi hefur ekkert úrræði fyrir unglinga í sál-félagslegum vanda verið byggt á reynslunámi og tilvistarmeðferð eins og hann.
Hálendishópurinn er eina meðferðarúrræðið á Íslandi sem fór að mestu leyti fram undir berum himni, eða í óbyggðum Íslands.
Hálendishópurinn var einstakur fyrir að gera leigangra og ævintýri að grundvelli meðferðar.
Markmið bókarinnar er margþætt. Bókin gerir grein fyrir sögu Hálendishópsins og þróun úrræðisins í tímanna rás. Bókin segir frá rannsókn á öræfameðferð á Íslandi, sem kannaði gildi og gagnsemi meðferðarinnar fyrir þá unglinga sem tóku þátt í starfi Hálendishópsins. Rannsóknin bar saman félagslega aðlögun unglinga úr Hálendishópum, þriggja hópa unglinga á sama aldri í skólakerfinu og hóp unglinga í sál-félagslegum vanda, sem ekki fóru í ferð með hópnum á Strandir.
Síðan er sagt frá sögu og þróun öræfameðferðar á Vesturlöndum og frá rannsóknum á árangri hennar. Þá er bókinni líka ætlað að vera myndabók um líf okkar sem tóku þátt í ferðalögunum á Ströndum.
Að endingu er bókin handbók um öræfameðferð á Íslandi, þ.e.a.s, hvernig svona úrræði er skipulagt, undirbúið og framkvæmt. Handbókin er hugsuð til að létta undir með þeim sem hugsanlega vilja taka upp þráðinn þar sem við slepptum honum.