Guðbergur Bergsson hefur einstaka sýn á mannlegt eðli og samfélag. Hér má lesa sögur úr heillandi blöndu fyndni og sársauka, sannleika og uppspuna. Þegar lesandinn heldur að hann hafi áttað sig á hvert stefnir er honum komið í opna skjöldu með óvæntum snúningi, órum, háði, sannleika eða skyndilegri viðkvæmni – sem höfundurinn hefur flestum betur á valdi sínu.
Guðbergur hefur gjarnan farið ótroðnar slóðir í verkum sínum og sett mark á íslenskar bókmenntir. Hann hefur skrifað skáldsögur, smásögur, ljóð, barna – bækur, skáldævisögur og hlotið ýmiss konar viðurkenningar fyrir bækur sínar, hérlendis og erlendis.
Guðbergur Bergsson fæddist 16. október 1932 í Grindavík. Hann lauk kennaraprófi 1955, hélt síðan til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958. Hann er einhver áhrifamesti rithöfundur Íslendinga á síðari hluta 20. aldar og allt fram á þennan dag. Fyrsta bók Guðbergs, Músin sem læðist, kom út árið 1961. Hann hefur sent frá sér fjölda bók – menntaverka af ýmsu tagi og hlotið fyrir þau margvíslegar viðurkenningar, hérlendis sem erlendis, meðal annars Íslensku bókmennta – verðlaunin 1992 og 1998 og Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar árið 2004. Hann hefur einnig hlotið riddarakross afreksorðu Spánarkonungs. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.