Halldór Baldursson, einn snjallasti teiknari landsins og þjóðkunnur fyrir skopmyndir sínar í Fréttablaðinu, lauk meistaranámi í listkennslufræðum í vor. Lokaritgerð hans er ein sú alskemmtilegasta því þar fer Halldór í myndasöguformi yfir skólagöngu sína og menntun og skoðar hvernig myndasagan getur nýst við að koma þekkingu og fróðleik á framfæri.
Umsögn prófdómara:
Verkefnið í heild sinni er bæði framúrskarandi áhugavert og gagnrýnið. Höfundur notar kímni og afar greinandi huga í að skoða eigin skólagöngu og kennslu með tilliti til þess sem hann hefur kynnst í gegnum nám sitt við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.
Hann nýtir heimildir og skrif annarra fræðimanna af natni og innsæi og nær að draga fram eigin skilning á fræðunum til að upplýsa eigin ályktanir af reynslu sinni.
Sérstaklega er áhugavert að höfundur leitar til samferðafélaga sinna í grunnskóla til að reyna að staðfesta eigin minningar. Þar kemur í ljós veikleiki mannlegs minnis. Manneskjan ver sig með gloppóttu valkvæðu minni og leyfir oftast bara eigin útgáfu að fljóta á yfirborðinu.
Þrátt fyrir þetta er myndasagan sem fylgir greinargerðinni mjög heildstæð og gagnrýnin á bæði eigin þátttöku höfundar í grunnskólanámi og líka hvaða áhrif samferðafólk og umhverfi hafði á hann. Svo koma gagnrýnar sviðsmyndir þar sem höfundur skoðar eigin kennslu út frá kenningum annarra fræðimanna og niðurstaðan er verulega hressandi sjálfsrýni.
Halldóri tekst með þessu verkefni að færa kennslufræðilegar starfendarannsóknir á annað stig og mun verkefnið vera hvatning fyrir menntavísindin í heild sinni til naflaskoðunar og minnir vel á að í gegnum kímni getum við nálgast auma kvikuna sem býr milli raunverulegrar upplifunar og fræðilegra skilgreininga á athöfnum mannskepnunnar.
Úr umsögn leiðbeinanda:
Verk Halldórs er framúrskarandi vel unnið í alla staði og honum hefur tekist með einstökum hætti að skoða hefðbundnar kenningar í menntavísindum frá nýjum og ferskum sjónarhóli auk þess að afhjúpa f