Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Samfélagsmiðladrottningin mamma hennar tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. Sjálf vill hún helst af öllu fá að vera í friði og æfa parkúr án þess að fólk fatti að hún sé klósettkrakkinn.
En nú versnar í því! Mamma Lindu er einn af áhrifavöldunum sem keppa um pláss í raunveruleikaþættinum Mömmuskiptum. Barbara systir er æsispennt, pabba virðist standa á sama og enginn hlustar á hávær mótmæli Lindu. Ef allt fer á versta veg fá þau glænýja mömmu í heilan mánuð og heimsbyggðin mun fylgjast með!
Mömmuskipti er önnur bókin sem Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir skrifa saman en sú fyrri, Blokkin á heimsenda, hlaut bæði Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og Íslensku bókmenntaverðlaunin.