Á hvítum vetrarmorgni finnst yfirgefinn flutningagámur í Rauðhólum við Reykjavík. Þegar hann er opnaður blasir hryllingurinn við: fimm lífvana konur sem augljóslega hafa verið fluttar í þessum gámi yfir hafið. Hvernig getur svona lagað gerst og hverjir standa að baki þessari óhæfu? Rannsóknarlögreglumennirnir Daníel og Helena mæta á vettvang og hefjast handa en á meðan sinnir Áróra, vinkona Daníels, öðru máli: Elín frænka hennar er í sambandi við rússneskan mann sem vill endilega að þau gifti sig en virðist hafa óhreint mjöl í pokahorninu …
NÁHVÍT JÖRÐ er æsispennandi og hrollvekjandi saga um glæpamenn sem svífast einskis og fórnarlömb mansals – þræla nútímans. Aðalpersónurnar Áróru og Daníel þekkja lesendur úr bókunum Helköld sól og Blóðrauður sjór sem báðar hlutu afar góðar viðtökur.
Lilja Sigurðardóttir er einn vinsælasti spennusagnahöfundur landsins en auk skáldsagna hefur hún skrifað leikrit og handrit að sjónvarpsþáttum. Hún hefur verið tilnefnd til einna virtustu glæpasagnaverðlauna heims, breska Gullrýtingsins, og fyrir tvær bóka sinna hlaut hún íslenska Blóðdropann og tilnefningu til norræna Glerlykilsins.