Pardusinn, fiðraða veran, Jean-Luc, Marcelo og Paulinho ferðast hér um innri lönd og kanna hið ógreinilega og óþægilega – það sem tengir okkur saman og slítur að lokum í sundur, meltir og skítur.
Fiðraða veran fékk loksins peningana sem hún hafði beðið eftir. Þeir komu út úr hnúðnum á hendi Jean-Lucs, peningarnir sem hann átti í alvöru. Hún þurfti ekki að beita afli til að ná peningunum úr hendinni á manninum, hann skildi vel skuldina og hjálpaði henni að ná öllu góssinu út, samankuðluðum seðlum, vandlega samanbrotnum búntum, myntum í hundraðatali. Ávísanir, erfðaskrár, loforð. Hún hirti líka loforðin. Hann hjálpaði henni að ná loforðunum út úr hendinni á sér, þau sem höfðu gróið við sinarnar voru augljóslega þau sem skiptu máli í alvöru.
Þegar þau höfðu náð öllu út var höndin hol að innan. Gersamlega hol og lá eins og gömul tuska niður eftir bol Jean-Lucs. Þau skáru tuskuna af og komu henni fyrir í skáp með hinum tuskunum sem voru þegar til á heimilinu.