Einstæð móðir hverfur af heimili sínu en skilur eftir miða með skilaboðum á eldhúsborðinu. Í fyrstu er talið að hún hafi fyrirfarið sér en þegar illa farið lík finnst í Grábrókarhrauni sjö mánuðum síðar standa lögreglukonan Elma og samstarfsmenn hennar frammi fyrir flókinni morðgátu. Fimmtán árum fyrr liggur nýbökuð móðir á fæðingardeild og hefur óbeit á barninu sem liggur við hlið hennar.
Stelpur sem ljúga er grípandi og mögnuð spennusaga um það hvernig brotin æska og áföll geta leitt til skelfilegra atburða síðar á lífsleiðinni. Eva Björg Ægisdóttir hlaut fyrst allra glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir frumraun sína Marrið í stiganum. Bókin fékk mikið lof, sat vikum saman í efstu sætum á metsölulistum og er nú væntanleg á markað erlendis. Stelpur sem ljúga sýnir glöggt að Eva Björg er á meðal okkar fremstu glæpasagnahöfunda.