Hér er fjallað um hjátrú af ýmsum toga, bæði innlenda og erlenda, gamalgróna og nýja. Leitast er við að setja efnið fram á skýran og einfaldan hátt með því meðal annars að flokka hjátrúna í efnisflokka svo sem: Dýr, tíminn, líkaminn, ástir og kynlíf, matur og drykkur, athafnir, börn, hlutir, sjúkdómar og dauði.
Þá er rætt við nokkra einstaklinga úr mismunandi starfsstéttum um þá hjátrú sem fyrirfinnst í þeirra starfsumhverfi, lögreglumann, íþróttamann, flugstjóra,
leikara, tónlistarmann og hjúkrunarfræðinga. Í inngangi bókarinnar er fyrirbærið hjátrú skilgreint á ítarlegan hátt.
Símon Jón Jóhannsson er fæddur á Akureyri árið 1957. Hann með BA-próf í íslensku og bókmenntafræði, Cand.mag. próf í menningarsagnfræði, MA-próf í þjóðfræði auk kennsluréttindaprófs í uppeldis og kennslufræðum.
Símon Jón hefur um árabil starfað sem framhaldsskólakennari og samhliða því fengist við ritstörf. Hann hefur skrifað og tekið saman um þrjátíu bækur, einkum um þjóðfræðileg, sagnfræðileg og bókmenntaleg efni.