Maður finnst myrtur í sumarbústað við Laugarvatn og sú sem kemur að honum er Magga, dóttir Adams sálfræðings og Soffíu rannsóknarlögreglukonu. Mál fara að flækjast þegar í ljós kemur að einn skjólstæðingur Adams hefur fundið hótunarbréf sem tengist morðinu og fyrr en varir er Adam enn á ný kominn hálfnauðugur í hlutverk aðstoðarmanns sinnar eldhressu, lakkrísbryðjandi fyrrverandi eiginkonu. Í ofanálag ágerist heilabilun móður hans og leyndarmálið um Jennýju leitar upp á yfirborðið.
Jónína Leósdóttir hefur skrifað á þriðja tug bóka og er ekki síst þekkt fyrir vinsælar glæpasögur sínar um Eddu á Birkimelnum. Þvingun er þriðja bókin um Adam og Soffíu en þeim fyrri hefur verið afar vel tekið.