Ég leynist í miðri þykjustunni
þar sem ekkert sést
þar sem enginn sér mig
fyrr en kveikt er á þykjustuljósi
og þykjustugeislinn beinist að mér.
Ég þykist í þykjustuleik.
Við þykjumst á þykjustuleikum.
Anton Helgi býður í sirkus. Í Þykjustuleikunum fer fram samfelld dagskrá og alls konar persónur, misjafnlega kunnuglegar, eru kynntar til leiks. Ólíkar raddir skiptast á, sumt er fyndið, sumt sorglegt og stundum lætur hryllingurinn á sér kræla.
Frá því að Anton Helgi Jónsson (f. 1955) kvaddi sér hljóðs um miðjan áttunda áratug síðustu aldar hefur hann verið í hópi okkar snjöllustu og vinsælustu skálda. Þykjustuleikarnir er hans tíunda frumsamda ljóðabók.