Ég sótti kíkinn og fylgdist með lambinu reyna að standa í lappirnar og sjúga spena. Ég skil ekki hvernig nýfætt lamb veit að mamman er með spena. Ekki fattaði ég, þegar ég fæddist, að mamma væri með spena. Ætli lömb séu gáfaðri en börn?
Máney á heima í sveitinni hjá ömmu og afa. Hún vill hvergi annars staðar vera, enda elskar hún dýrin, heimalningurinn skoppar í kringum hana og ferðamenn kaupa af henni kleinur og kindahausa. Þegar Sólmundur flytur á næsta bæ er hann eins og geimvera og gargar á alla. En þegar þau bjarga álftaregginu frá tófunni breytist allt. Seint um kvöld fara þau svo saman að álfkonuhólnum og myrkrið gleypir þau. Það besta er þó að Sólmundur á litla systur sem getur kannski orðið systir Máneyjar líka.
Tunglið, tunglið taktu mig er skemmtileg saga eftir Þorgrím Þráinsson sem skrifað hefur fjölda vinsælla barna- og unglingabóka. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Ertu guð, afi? og Margt býr í myrkrinu, hefur tvívegis verið sæmdur Bókaverðlaunum barnanna og tók á móti Viðurkenningu Barnaheilla fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra.