Verði ljós, elskan er fimmta skáldverk Soffíu. Ljóð sem segja sögu af fegurð, fíkn og fyrirgefningu. Um flöktandi ljós milli svefns og vöku, elskendur, heilaga skál, brottför, heimkomu, tundurdufl.
Fyrsta skáldsaga Soffíu Segulskekkja kom út haustið 2014, fékk nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta og var gefin út í franskri þýðingu hjá Éditons Zulma. Áður hefur Soffía sent frá sér ljóðabækurnar Beinhvít skurn (2015) og Ég er hér (2017), um goðsagnir, ummyndun, fegurð og grimmd ástar. Þá var leikritið Erfidrykkjan sýnt á Listahátíð í Reykjavík 2018 í samstarfi við Borgarleikhúsið. Hunangsveiði, önnur skáldsaga Soffíu, frá árinu 2019 fjallar um tengsl og tengslaleysi, dularfulla ferð frá Íslandi til Portúgal, um söknuð, arf, munúð og mörk siðferðis. Ljóð eftir Soffíu hafa verið þýdd á ensku og portúgölsku og birst í tímaritum, m.a. Eufeme, Magazine de Poesia, í Portúgal, á þessu ári.