Á óveðursdegi árið 1920 kemur Violeta í heiminn í Chile. Frá þeirri stundu rekur hver stórviðburðurinn annan; spánska veikin heldur innreið sína í heimaland hennar og brátt skellur heimskreppan á. Ríkidæmi fjölskyldunnar verður að engu og hún neyðist til að flytja í afskekkt þorp þar sem hún kynnist harðri lífsbaráttu – og þar knýr fyrsti biðillinn dyra.
Allt sitt líf berst Violeta fyrir sjálfstæði sínu. Hún byggir upp viðskiptaveldi og leitar hamingjunnar en örlög hennar mótast af byltingum, kúgun, frelsisbaráttu og ekki síst baráttu kvenna gegn ofbeldi. Hundrað ár líða og þegar nýr faraldur heldur heiminum í heljargreipum segir Violeta sögu sína í bréfi; sögu af ríkidæmi og fátækt, djúpum harmi og óbilandi ást.
Þessi margbrotna skáldsaga Isabel Allende er innblásin af sögu móður hennar. Hér beitir hún enn á ný töfrandi frásagnargáfu sem hefur hrifið lesendur um allan heim í bókum eins og Yfir höfin, Evu Lunu og Húsi andanna.
Sigrún Á. Eiríksdóttir þýddi.