„Er þetta það sem kemur út úr háskólanum eftir margra ára nám? Hver á að vaska upp?“ Ónefndur álitsgjafi, dv.is
„Jólahagfræðingurinn var góður!“ Steingrímur J. Sigfússon, Vikan með Gísla Martein
Sumir halda að hagfræði sé leiðinleg og snúist alfarið um verðteygni, stýrivexti, verga þjóðarframleiðslu og arðsemi eigin fjár á fyrsta ársfjórðungi. En í húsi hagfræðinnar eru fjölmörg herbergi sem minna hefur farið fyrir; jóla-hagfræðin, djamm-hagfræðin, bílasölu-hagfræðin og landa – bruggs-hagfræðin eru einungis fáein dæmi þar um.
Eiríkur Ásþór Ragnarsson hefur vakið athygli fyrir fræðandi og skemmtilega pistla á vefmiðlinum Kjarnanum undir yfirskriftinni Eikonomics. Þar bregður hann hagfræðiljósi sínu í óvæntar áttir – og setur áleitin hagsmunamál daglega lífsins í splunkunýtt samhengi. Þannig fer ekki á milli mála að greinin er ekki torrætt leiktæki leynireglu með aðsetur í kjallara Seðlabankans heldur er viðfangsefni hennar fólk eins og þú og ég. Og ryksuguróbotar .