Ekkert er öruggt
nema andartakið
Fortíðin er flöktandi minning
sem varla getur talist traust
framtíðin ágiskun
sem enginn veit hvort rætist
Einungis nútíður er áþreifanleg
eina hverfula stund
Þar sem fortíð og framtíð mætast
þar er eilífðin alvöld
eina hverfula stund
Njörður P. Njarðvík er fæddur 1936. Hann stundaði háskólanám í íslensku og sænsku, lauk doktorsgráðu 1993 og var í áratugi kennari og fræðimaður í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, seinast prófessor. Hann hefur sinnt margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum og hlotið fjölda viðurkenninga. Sænska akademían hefur verðlaunað hann fyrir þýðingar og kynningu á sænskri menningu, hann hefur hlotið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningu úr Rithöfundarsjóði Ríkisútvarpsins svo fátt eitt sé nefnt. Njörður hefur skrifað bækur af ýmsu tagi, skáldsögur, ljóð, barnabækur, kennslubækur, fræðirit og fleira. Einnig hefur hann þýtt fjölmörg verk á íslensku, ekki síst ljóð.