Höfundar: Melkorka Ólafsdóttir og Hlíf Una Bárudóttir
Undir fótum okkar
önnur borg
tungumál sem við
skiljum ekki nema
láta frá okkur allt
sem við þekkjum
lögmálin önnur og þó:
þar mætast elskhugar
þar er grimmd
og svo eitthvað sem rétt snertir vitundina
eins og lykt eða minning sem
hverfur jafnóðum
við rýnum inn um gluggana
leiðirnar lokaðar en
sendiboðarnir ósýnilegir allt um kring
við
með þessi daufu vasaljós
Í þessari undurfallegu bók fáum við að kynnast leyndarlífi íslenskra sveppa. Raddir þeirra berast okkur úr skógarbotninum og vegkantinum, af trjábolum, greinum og steinum; við kynnumst sveppum sem skjóta, springa, seyta, fettast og brettast, trega og syrgja, daðra og elska. Melkorka Ólafsdóttir skáld og Hlíf Una Bárudóttir teiknari ljá sveppunum rödd og ásjónu.
Melkorka Ólafsdóttir er tónlistarkona, skáld og dagskrárgerðarkona hjá Rás 1. Hún hefur skrifað ljóð frá barnsaldri og gaf ung út tvö ljóðahefti; Unglingsljóð (2000) og Ástar – ljóð (2004). Melkorka er ein Svikaskálda, sem saman hafa gefið út þrjár ljóðabækur, Ég er ekki að rétta upp hönd (2017), Ég er fagnaðarsöngur (2018) og Nú sker ég netin mín (2019), auk skáldsögunnar Olíu, sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2021. Melkorka lauk meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands vorið 2018. Fyrsta ljóðabók hennar í fullri lengd, Hérna eru fjöllin blá, kom út haustið 2019.
Hlíf Una Bárudóttir teiknari útskrifaðist frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2016. Síðan þá hefur hún aðallega unnið við myndskreytingu bóka og bókarkápa og árið 2021 var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem myndhöfundur bókarinnar Í huganum heim. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt teikniverkefni fyrir fjölmiðla og stofnanir, gert ýmsar tækifærismyndir fyrir einstaklinga og fyrirtæki ásamt því að sinna stundakennslu við Myndlistaskólann í Reykja