„Fleiri urðu orðin ekki en samt held ég áfram að rifja upp samtalið, hálft í hvoru til að meta hvort ég hafi sagt eitthvað asnalegt. Taka út hversu mikið á skalanum einn upp í tíu ég þurfi að skammast mín. Allt venju samkvæmt.“
Askur ætlar að byrja upp á nýtt. Flýja rokið og íslenska tungu, óþæginleg samskipti, óttann við að mistakast, kvíðvænlegar áskoranir hversdagsins og stóru spurningarnar í lífinu. En aþað virðist vera sama hvert hann fer, alltaf er mamma hans – sem hann hefur ekki hitt í meira en áratug – með í för.
Gegnumtrekkur er hnyttin og heiðarleg skáldsaga um stritið við að standa í lappirnar í vindasamri tilverunni og í samskiptum við sína nánustu.
Einar Lövdahl bar sigur úr býtum í Nýjum röddum, handritasamkeppni Forlagsins, með smásagnasafninu Í miðju mannhafi (2021). Auk þess jefur hann skrásett á bók knattspyrnusögu Arons Einars Gunnarssonar, gefið út frumsamda tónlist í eigin nafni og með hljómsveitinni LØV & LJÓN og jafnframt samið texta fyrir þjóðþekkt tónlistarfólk.
Gegnumtrekkur er fyrsta skáldsaga hans.