Meðal hvítra skýja: Vísur frá Tang-tímanum í Kína 618-907 geymir fornar og heillandi kínverskar vísur í þýðingu Hjörleifs Sveinbjörnssonar. Kveðskapurinn er frá tímum Tang-keisaraættarinnar sem ríkti fyrir meira en þúsund árum, á árabilinu 618 til 907, en kínversk ljóðlist náði þá áður óþekktum hæðum og teljast ljóðin til bókmenntagersema heimsins.
Hjörleifur hefur áður tekið saman og þýtt sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar, Apakóngur á Silkiveginum, og deilir nú með lesendum eftirlætisvísum sínum frá blómaskeiði ljóðlistarinnar í Kína. Af mikilli list hefur hann þýtt á fjórða tug stuttra vísna eftir tuttugu skáld, misjafnlega vel þekkt, og tekið saman gagnlegan fróðleik um skáldin og skýringar við hverja vísu til að gefa innsýn í þann framandlega heim sem þær eru sprottnar úr.