Húsið Nesstofa var falið Þjóðminjasafni Íslands til umsjónar 1979, og vinna við endurreisn hússins hófst.
Endurreisn Nesstofu lauk árið 2008 og kemur saga þessa merka húss nú út í glæsilegu og vönduðu ritverki, sem telur á fjórða hundrað síður og prýtt er fjölda uppdrátta og ljósmynda.
Í bókinni lýsir Þorsteinn Gunnarsson af mikilli nákvæmni vinnu við endurreisn hússins, rannsóknum, hönnun og smíði, og kryfur til mergjar mörg atriði sem ekki lágu ljós fyrir.
Bókin er mikilvægt innlegg í rannsóknir á dansk – íslenskri byggingarlistasögu og veitir um leið innsýn í aðferðir við endurgerð gamalla húsa.
Í bókinni greinir Þorsteinn sögu hússins sem var reist á árunum 1760-1767 í samstarfi dana og íslendinga.
Bygging hússins var liður í því að efla íslenskt samfélag með bættri stjórnsýslu og innviðum, en bústaður fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar var í húsinu ásamt vísi að læknaskóla og ljósmæðranámi. Í Nesstofu hófst opinber lyfsala árið 1772.
Að ritverki þessu er mikill fengur fyrir þá sem láta sig varða íslenska byggingararfleifð og húsagerðarlist, menningarsögu og fræðast vilja um vinnubrögð við varðveislu, viðhald og endurreisn bygginga sem hafa listrænt og sögulegt gildi.