Ég stöðva bílinn á rauðu ljósi á Miklubrautinni. Set hazardljósin á og hækka í tónlistinni. Þegar græna ljósið flöktir yfir götunni er fyrst flautað og svo keppast bílstjórarnir fyrir aftan mig við að troða sér yfir á næstu akrein. Síðdegisumferðin verður enn þyngri. Pabbarnir og mömmurnar verða enn seinni heim, afsaka sig í leikskólunum enn eitt skiptið. Missa úr höndunum ósýnilegar tímasprengjur, dagskipulagið úr skorðum. Ég horfi beint fram og þrýsti öxlunum aftur, hækka aðeins meira. Finn hvernig tónlistin og bílflautið stífa á mér hnakkann, finn fyrir kjálkanum.
Vatn og olía eru ósamrýmanleg efni, andstæður sem blandast ekki saman heldur eru í stöðugri mótstöðu hvor við aðra. Skáldsagan Olía segir af sex konum sem samlagast ekki umhverfi sínu, geta ekki annað en rofið endurtekin mynstur og hringrás vanans, geta ekki annað en hellt olíu á eldinn.
Svikaskáld eru skipuð Þórdísi Helgadóttur, Þóru Hjörleifsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Melkorku Ólafsdóttur og Fríðu Ísberg, sem allar hafa getið sér gott orð í íslensku menningarlífi. Þær hafa áður gefið út ljóðverkin Ég er ekki að rétta upp hönd , Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín.
Olía er fyrsta skáldsagan sem hópurinn skrifar í sameiningu.