Opið hafi er einstaklega mögnuð og grípandi frásögn um ótrúlega mannraun.
Þegar fiskibát hvolfir úti á opnu hafi síðla kvölds í vetrarmyrkri við suðurströnd Íslands er fátt sem getur komið sjómönnunum um borð til bjargar; enginn björgunarbátur, engin fjarskipti, engin neyðarblys, ekki neitt. Af skipverjunum fimm komast þrír á kjöl, hinir hverfa í djúpið. Og þegar báturinn sekkur eiga þeir engan kost annan en að leggjast til sunds og trúa því besta þótt óralangt sé til lands – heim til Eyja. En brátt er aðeins einn þeirra eftir. Aleinn.
Einn maður andspænis algeru ofurefli, einn maður syndandi á opnu hafi í nístingskulda og svartamyrkri. Vonarglæturnar slokkna ein af annarri, félagarnir hverfa út í náttmyrkrið, bátur fer hjá án þess að áhöfnin verði vör við manninn í sjónum – hann syndir áfram, syndir, syndir í örvæntingu … Einar Kárason segir hér á eftirminnilegan hátt sögu af bráðum lífsháska og sterkum lífsvilja; Opið haf er skáldsaga byggð á sönnum atburði eins og tvö seinustu skáldverk hans, Stormfuglar og Þung ský. Þeim sögum var báðum afar vel tekið, sú fyrrnefnda hlaut virt verðlaun í Svíþjóð og Sunday Times valdi hana bestu bók ársins 2020 í flokki þýddra skáldverka.