Þeim sem södd eru af sólskini bjóðast nú kjaftshögg í kílóavís
GESTUR EILÍFSSON
og hans fólk hefur fengið inni í gömlum torfbæ á Eyrinni í Segulfirði.
Sextíu kíló af kjaftshöggum er sjálfstætt framhald verðlaunaskáldsögunnar Sextíu kíló af sólskini.
Bók sem bæði hressir og hryggir.
Sagan hefst í Segulfirði árið 1906. Áfram vindur furðuríku ferðalagi Íslendinga út úr myrkum torfgöngum inn í raflýstar stofur. Lesandinn er hrifinn með í dans á síldarpalli, í ólgandi takti sem dunar í huganum að lestri loknum því enn á ný hefur Hallgrími tekist að kveða dýran óð úr örlögum fátæks fólks við ysta haf.
Hallgrímur Helgason hefur hlotið ófáar viðurkenningar á ferli sínum sem rithöfundur. Þrisvar sinnum hefur hann hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fyrst fyrir Höfund Íslands árið 2001, næst fyrir Sextíu kíló af sólskini árið 2018 og nú í þriðja sinn fyrir Sextíu kíló af kjaftshöggum árið 2021.