Á 17.–20. öld gerðu vísindamenn margvíslegar uppgötvanir sem höfðu afdrifarík áhrif á framþróun náttúruvísindanna. Færri vita að íslenskur kristall gegndi þar oftar en ekki lykilhlutverki, nánar tiltekið sá sem kallaður hefur verið silfurberg.
Á 250 ára tímabili var aðeins þekktur einn staður í heiminum, Helgustaðir í Reyðarfirði, þar sem finna mátti nógu tæra og stóra silfurbergskristalla til að þá mætti nýta til vísindarann-sókna. Hundruð tonna af silfurbergi voru flutt frá námunni, það barst víða og hafði áhrif á verk margra af nafntoguðustu vísindamönnum sögunnar – frá Isaac Newton til Alberts Ein-steins. Silfurberg frá Helgustöðum varð lykillinn að ýmsum ráðgátum um eðli ljóssins, raf- og segulhrif, uppbyggingu efnisheimsins, víxlverkun ljóss og efnis og eðli rúms og tíma í alheim-inum. Framþróunin varð undirstaða nýrrar samfélagsgerðar með framleiðslu og flutningi raforku, framförum í efnistækni og fjarskiptum og matvæla- og efnaframleiðslu. Á öllum þessum sviðum gegndi íslenska silfurbergið mikilvægu hlutverki.
Þannig hafði silfurberg mótandi áhrif á vísindi sem hafa haft grundvallarþýðingu fyrir líf flestra jarðarbúa og fjölmargt af því sem við teljum nú sjálfsagða hluti í hvunndagslífi okkar.
Vísindamennirnir Leó Kristjánsson og Kristján Leósson hafa um árabil kannað þessa heillandi sögu og rekja hana hér á ljósan og aðgengilegan hátt.