Spítalastelpan var hún kölluð stelpan sem veiktist af berklum í hrygg á Ströndum Norður og var fyrstu ár sín að mestu reyrð niður í rúm á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hún byrjaði ekki að ganga fyrr en á sjöunda ári, sigldi heim þar sem faðir hennar var dáinn og móðirin búin að yfirgefa hana í huganum. En hún bjó yfir einstökum lífsþorsta og vongleði.
Uppvaxtarsaga Sigurvinu Guðmundu Samúelsdóttur, Vinsýjar eins og hún er alltaf kölluð, er í senn sársaukafull og þrungin von og gleði yfir því smáa – en um leið er hún afhjúpandi um samfélag síðustu aldar. Vinsý þurfti oft að bíta á jaxlinn – en upplifði einnig djúpa hamingju og gleði.