Bjarni Thorarensen (1786–1841) er jafnan talinn til höfuðskálda Íslendinga. Einkum er hans minnst sem frumkvöðuls innlendrar rómantíkur, skálds sem orti jafnt kraftmikil ættjarðar- og orustukvæði, eldheit ástarljóð, lofsöngva til norræns vetrar og minningarljóð um fólk sem átti ekki samleið með fjöldanum.
Um leið var hann eitt þeirra þjóðskálda 19. aldar sem reyndu að efla sjálfsvitund landsmanna og menningarlegt og pólitískt forræði innan þess fjölþjóðlega danska konungsríkis sem þeir voru þá hluti af.
Undanfarna áratugi hefur lítið farið fyrir Bjarna og ljóðum hans. Sum þeirra lifa að vísu sjálfstæðu lífi í íslensku umhverfi, menningu og tungumáli en bera oft sama svip og veðraður og mosagróinn legsteinn Bjarna. Þar gildir einu hvort fjallkonan á í hlut, ekið er um Gullinbrú í Grafarvogi, gripið er til orðtaksins um að Ísalands óhamingju verði allt að vopni eða rætt um kynlega kvisti mannlífsins. Hvaðan koma þessi orð og fyrirbæri, í hvaða samhengi stóðu þau upphaflega og hver var höfundur þeirra? Í þessari bók er rýnt í líf og list Bjarna.
Þórir Óskarsson er bókmenntafræðingur og hefur um langt skeið sinnt rannsóknum á íslenskum bókmenntum 19. aldar.