Elsu langar að mála og að því stefnir hún af miklum metnaði þótt fyrirmyndirnar séu fáar um miðja 20. öld. Eftir nám í Handíðaskólanum í Reykjavík og listnám í Kaupmannahöfn er hún komin til Parísar og ekkert skal standa í vegi fyrir framtíðardraumum hennar. Hún ætlar sér að fá boð um einkatíma hjá frægasta kennara borgarinnar og hún skal fá að sýna verk sín í flottustu galleríunum. En það krefst fórna. Þetta rauða, það er ástin dregur upp áhrifaríka mynd af ungri konu sem berst fyrir því að láta drauma sína rætast en ber eftir það sár sem hún getur ekki nefnt við nokkurn mann.
Ragna Sigurðardóttir var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir fyrstu skáldsögu sína, Borg, og hefur síðan hlotið verðskuldaða athygli fyrir sögur sínar. Smásagnasafnið Vetrargulrætur hlaut einróma lof gagnrýnenda árið 2019.