Þjóðernishugmyndir, popúlismi, upplýsingaóreiða og samsæriskenningar af ýmsu tagi hafa verið áberandi í samtímanum í þjóðfélagsumræðu á Vesturlöndum – og raunar um allan heim – en ræturnar liggja mun dýpra. Hvað hefur valdið þessari þróun og hvert stefnum við?
Dr. Eiríkur Bergmann hefur lengi stundað víðtækar rannsóknir á þróun stjórnmála og þjóðfélagsbreytinga, frá frjálslyndu lýðræði eftirstríðsáranna að nýjum birtingarmyndum þjóðernishyggju og popúlisma, og hafa ýmsar af þeim niðurstöðum birst í bókum hans sem alþjóðlega fræðaforlagið Palgrave Macmillan hefur gefið út. Hér dregur hann fram mismunandi bylgjur þjóðernispopúlisma sem gengið hafa yfir Vesturlönd undanfarna hálfa öld og segir frá helstu hreyfingum og leiðtogum, bakgrunni þeirra og sögu á aðgengilegan og fjörugan hátt með persónulegu ívafi.
Eiríkur Bergmann er fæddur árið 1969. Hann lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist með meistaragráðu í alþjóðastjórnmálafræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1998 og doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Hann er nú prófessor við Háskólann á Bifröst og hefur einnig verið gestaprófessor við ýmsa evrópska háskóla. Eiríkur hefur stundað rannsóknir á sviði þjóðernishyggju, popúlisma, Evrópumála og þátttökulýðræðis og skrifað fræðibækur, bókarkafla og vísindagreinar um mörg þeirra mála sem hæst hefur borið í þjóðmálaumræðu síðustu ára og áratuga. Nokkrar bækur hans hafa komið út erlendis og hlotið afar góðar umsagnir fræðimanna. Eiríkur hefur einnig verið reglulegur álitsgjafi hjá íslenskum og erlendum fjölmiðlum.